Page Analysis flipinn í Yoast SEO

Page Analysis í Yoast. Námskeið í Leitarvélabestun.

Undir „Analysis“ sérðu lista af atriðum sem tengjast leitarvélabestun og greiningu á því hvort færslan þín sé vel eða illa leitarvélabestuð miðað við leitarorðið eða frasann sem þú valdir fyrir neðan. Athugaðu að greiningin breytist ef þú hakaðir við „Cornerstone content“ því þú þarf að hafa meira fyrir þeim færslum en öðrum.

Leitarvélabestun í Yoast. Analysis.

Ef þú sérð atriði merkt með rauðum doppum er mjög mikilvægt að þú lagir þau áður en þú birtir færsluna. Ef atriðin eru merkt með appelsínugulum doppum er einnig mikilvægt að þú lagir þau en þau hafa kannski ekki úrslitaáhrif. Ef atriðin eru merkt með grænum doppum ertu bara í góðum málum hvað þau varðar.

Atriðin eru:

  • Orðafjöldi. Google kann vel að meta lengri færslur og því lætur Yoast þig vita ef færslan er ekki nógu bitastæð. Gott er að venja sig á að hafa orðafjöldan meiri en 350.
  • Hlekkir innan síðunnar og utan hennar. Það er talið gott að hafa hlekki sem vísa frá vefsvæðinu og einnig að hafa hlekki á aðrar síður innan vefsvæðisins, til dæmis í eldri færslur eða síður.
  • Myndir. Endilega settu góðar myndir með færslunum og settu viðeigandi „alt-tag“ á þær með leitarorðinu eða frasanum þínum. Smelltu hér til að læra að setja alt-tag á myndir í WordPress.
  • Staðsetning leitarorðs í texta. Það er langbest ef þú nærð að setja leitarorðið eða frasann í fyrstu setninguna.
  • Titillinn á færslunni. Það virkar best að hafa leitarorðið eða frasann fremst í titlinum, en ekki þvinga það ef það kemur ekki vel út málfarslega séð. Titillinn þarf líka að vera passlega langur.
  • „Meta description“. Þetta var rætt í fyrsta hluta námskeiðsins. Passaðu að leitarorðið eða frasinn sé í lýsingunni. Það þarf líka að passa að lýsingin sé hæfilega löng.
  • „slug“. Það er best ef að leitarorðið eða frasinn kemur fram í vefslóðinni fyrir færsluna.
  • Notkun sama leitarorðs eða frasa fyrir margar færslur. Reyndu endilega að hræra aðeins í leitarorðunum. Það er ekki gott að skrifa alltaf færslur fyrir sama leitarorð. Reyndu að umorða eða nálgast efnið á annan hátt.

Lagaðu það sem þarf að laga í færslunni og vistaðu breytingarnar. Ef allar doppurnar eru orðnar grænar ertu í fínum málum. Það er ekki hægt að stóla á að síðan birtist ofarlega í leitarvélunum strax, því leitarvélarnar taka líka tillit til annarra þátta eins og aldurs vefsvæðisins, hlekkja á svæðið, o.fl. en þú ert a.m.k. búin/n að gera þitt besta hvað þessa færslu varðar.

Athugaðu að þér gæti fundist þetta dálítið skrítið og flókið til að byrja með, en eftir því sem þú skrifar og leitarvélabestar fleiri færslur kemst þetta upp í vana og þú leitarvélabestar ósjálfrátt á meðan þú skrifar, því þú kannt þetta betur.