Auðveldasta leiðin til að setja inn myndbönd í WordPress er að setja þau fyrst inn á síður eins og YouTube eða Vimeo. Þú getur deilt þeim þaðan inn á WordPress síðuna þína með því til dæmis að velja „share“ og finna „embed“ kóðann. Einfaldast er þó aðafrita slóðina á myndbandið og líma hana inn í færsluna sem þú ert að skrifa í WordPress.
WordPress birtir þá myndbandið sjálfkrafa í færslunni. Þessi aðferð virkar með slóðir á myndbönd á YouTube, Vimeo, Twitter og fjölda annarra. Kíktu inn á http://codex.wordpress.org/Embeds til að sjá hvaða aðilar styðja þessa aðferð.
Þegar þú smellir á „preview“ til að sjá hvernig færslan birtist lesendum sérðu að myndbandið kemur sjálfkrafa inn í færsluna og WordPress er búið að stilla það í rétta stærð.
Ef ofangreind aðferð virkar ekki á vefsíðunni þinni af einhverjum ástæðum, eða þú vilt hafa meiri stjórn á t.d. stærð og útliti á myndbandinu, geturðu notað aðferðina sem við nefndum fyrst. Eftir að þú hleður inn myndbandi á YouTube, veldu þá „share“ og „embed“. Veldu stærðina fyrir neðan myndbandið, afritaðu kóðann í glugganum fyrir ofan myndbandið og búðu til nýja síðu eða færslu í WordPress. Skiptu yfir í textaham (smelltu á „text“ flipann) og límdu kóðann þar. Aðferðin virkar ekki í „visual“ hlutanum. Smelltu á „preview changes“ til að sjá hvernig færslan birtist lesendum.
Við mælum með fyrri aðferðinni því hún er einfaldari og auðveldari.
Þú ættir núna að kunna að setja inn myndir og myndbönd.
Næst á dagskrá: Stýring athugasemda frá lesendum í WordPress.