Búa til nýja færslu í WordPress

Nú er kominn tími á að búa til fyrstu færsluna.

Í efstu stikunni á skjánum geturðu valið “new” og svo “post” og þá opnast textavinnsluskjárinn sem þú ættir að þekkja úr 3. hluta námskeiðsins.

Þú getur líka valið “add new” undir “posts” í valmyndinni vinstra megin til að komast á sama stað.

Veldu titil á færsluna þína. Þú sérð að WordPress býr sjálfkrafa til slóð (e. Permalink) fyrir færsluna út frá titlinum. Þú getur breytt slóðinni ef þér finnst það þurfa.

Gott er að skrá færsluna í einn eða fleiri flokka. Það er gert í kassanum hægra megin sem er merktur „Categories“. Það auðveldar þér og lesendum að finna færslur tengdar ákveðnu efni. Það tekur enga stund að búa til nýjan flokk. Þú smellir á „+ add new category“ og velur heiti á flokkinn. Ef flokkurinn er undirflokkur velurðu yfirflokkinn í listanum „parent category“. Til að staðfesta smellirðu á „Add New Category“ hnappinn. Nýi flokkurinn birtist í listanum og það er sjálfkrafa hakað í hann. Hann kemur til með að birtast framvegis þegar þú býrð til nýja færslu.

Einnig er gott að merkja (e. Tag) færsluna með leitarorðum. Þetta geta til dæmis verið lýsandi stikkorð úr textanum.

 

Í kassanum sem er merktur „featured image“ geturðu sett inn mynd tengda greininni. Þú getur annað hvort dregið myndaskrána í kassann eða valið „select files“ og fundið myndina þar.

Ef færslan er tilbúin til birtingar eða ef þú vilt vista hana sem uppkast skaltu kíkja á kassann sem er efst, hægra megin og er merktur „Publish“. Ef færslan er ekki tilbúin en þú vilt vista hana skaltu smella á „Save draft“. Ef færslan er tilbúin og þú vilt birta hana á vefsíðunni skaltu smella á „Publish“. Ef þú vilt sjá sýnishorn af því hvernig færslan kemur til með að birtast lesendum skaltu smella á „Preview“.

Undir „visibility“ geturðu valið hvort færslan sé sýnileg öllum lesendum (e. Public), hvort þurfi lykilorð til að lesa hana (e. Password protected) eða hvort hún sé einungis sýnileg þér (e. Private). Ef þú hakar við „Stick this post to the front page“ festirðu færsluna efst á síðunni og hún færist ekki neðar þótt þú setjir inn nýjar færslur.

Ef færslan er tilbúin en þú vilt ekki birta hana strax geturðu breytt tímasetningu birtingarinnar fram í tímann. Þú getur reyndar líka fært tímasetninguna aftur í tímann ef þú vilt.

Eftir að pósturinn hefur verið birtur geturðu smellt á „View post“ til að sjá hvernig hann kemur lesendum fyrir sjónir. Þar sérðu að myndin sem þú valdir birtist efst. Færslan sjálf kemur svo fyrir neðan myndina og lesendur sjá í hvaða flokki hún er og hvernig þú merktir hana með leitarorðum.

Næst á dagskrá: Ýmsar gerðir færslna í WordPress.