Að setja inn viðbætur í WordPress

WordPress er auðvitað frábært kerfi eitt og sér, en stundum vantar fólki einhverja virkni á síðuna sem er ekki innbyggð í kerfið. Þá notar það viðbætur frá þriðja aðila. Þú getur valið úr þúsundum viðbóta og tengt þær auðveldlega við síðuna þína.

Undir „plugins” og „installed plugins“ sérðu hvaða viðbætur eru tengdar síðunni. Athugaðu að þær geta verið óvirkar þótt þær séu á listanum. Það er vegna þess að þú þarft að fara í gegnum tvö skref til að virkja viðbót. Fyrst þarftu að setja hana inn, og svo að virkja hana.

Akismet-viðbótin fylgir öllum WordPress-kerfum. Hún er mjög góð leið til að vernda síðuna þína frá óæskilegum athugasemdum eða „spam“. Þú þarft að fara í gegnum stutt skráningarkerfi og fá API-lykil frá Akismet til að virkja viðbótina.

Til að setja inn nýja viðbót ferðu í „Add new“ undir „plugins“ vinstra megin á síðunni. Þú getur skoðað vinsælar viðbætur og þær sem WordPress mælir með. Eða leitað eftir ákveðnu leitarorði ef þú hefur eitthvað sérstakt í huga. Ef þú ert með viðbót á .zip sniði geturðu valið „upload plugin“ ofarlega á skjánum til að hlaða henni inn.

Önnur góð viðbót heitir „Jetpack“. Þú getur prófað að setja hana inn með því að smella á „install now“. Þá hleður WordPress-kerfið viðbótinni niður og bætir við síðuna þína. Mundu samt að smella á „activate“ til að virkja viðbótina.

Þá sérðu að valmöguleikinn „Jetpack“ hefur bæst við í listanum vinstra megin, undir „dashboard“. Þar geturðu breytt stillingum fyrir viðbótina og skoðað hvað hún býður upp á. Smelltu á „settings“ fyrir Jetpack og skoðaðu þig um.

Til gamans skaltu smella þar á flipa sem heitir „writing“ og virkja „contact form“. Farðu svo á „hafðu samband“ síðuna þína undir „pages“ vinstra megin á skjánum. Þar sérðu að kominn er nýr hnappur: „Add contact form“. Smelltu á hann til að fá upp stillingar fyrir formið. Þú getur breytt reitunum og valið hvaða netfang fær tilkynningar frá því. Smelltu svo á „add this form to my post“ og „update“ til að birta það á síðunni.

Þetta eru bara lítil dæmi um hvað hægt er að gera með viðbótum í WordPress-kerfinu. En hafðu samt varann á þegar þú setur inn nýjar viðbætur, þar sem sumar þeirra eru gamlar og óuppfærðar, og virka ekki með nýjustu uppfærslunum af WordPress. Ef að síðan þín virkar ekki eða það koma upp villumeldingar skaltu prófa að gera viðbætur óvirkar til að sjá hvort þær séu orsakavaldurinn.

Nú fer seinni partur námskeiðsins að ljúka en næst á dagskrá förum við yfir hvernig þú gefur notendum aðgang að WordPress síðunni þinni.