Vörur sem hægt er að hlaða niður í WooCommerce

Vörur sem hægt er að hlaða niður í WooCommerce

Til að búa til vöru sem hægt er að hlaða niður, til dæmis rafbók, fylgirðu að mestu leyti leiðbeiningunum úr 5. og 6. hlutum námskeiðsins. Nema hvað, að í „General“ flipanum merkirðu við „Virtual“ og „Downloadable“.

WooCommerce downloadable product

Við það dettur „Shipping“ flipinn út og „General“ flipinn breytist lítið eitt. Þar geturðu núna sett inn skrána fyrir vöruna sem fólk á að geta hlaðið niður, valið hversu oft og lengi fólk getur smellt á hlekkinn til að hlaða henni niður, en það er undir „Download expiry“ og „Download limit“.

Athugaðu að þegar þú hleður skránni upp, þarftu ekki að fylla strax út í „File name“ eða „File URL“, heldur bara velja „Choose file“ og finna hana í tölvunni hjá þér eða í WordPress kerfinu ef þú hefur hlaðið henni upp áður. Þar með birtist slóðin „File URL“ sjálfkrafa og þú velur viðeigandi nafn undir „Name“.

Þú getur bætt fleiri skrám við, til dæmis ef þú ert með rafbókina á fleiri en einu sniði eða ef fleiri en ein skrá fylgir vörunni þinni. Einnig geturðu þjappað öllu saman og hlaðið upp .zip skrá.

Svo smellirðu einfaldlega á „Publish“ og svo „View Product“ til að sjá útkomuna í vefversluninni þinni.

Nú þegar við höfum rennt yfir vörurnar er kominn tími til að gera Prófanir á WooCommerce.