Hvernig á að flokka og merkja færslur í WordPress

Mikilvægt er að flokka og merkja færslur jafnóðum og þær eru birtar. Bæði er það til þæginda fyrir þig til lengri tíma litið og auðveldar lesendum síðunnar að finna efni.

Ef þú skoðar færslur á WordPress-vefsíðum sérðu að þær eru flestar flokkaðar, t.d. eftir efni. Lesendur geta smellt á heiti flokksins og fá þá upp aðrar færslur sem höfundur hefur flokkað í hann. Í staðlaða WordPress-útlitinu birtast flokkaheitin og merkin fyrir neðan færslurnar.

Ef þú vilt bæta við flokkum, breyta þeim eða eyða geturðu smellt á „posts“ og „categories“ í valmyndinni vinstra megin á skjánum. Eins og við nefndum fyrr í námskeiðinu geturðu líka bætt við flokkum um leið og þú býrð til nýja færslu.

Til að bæta við nýjum flokki, skrifarðu heitið á honum undir „name“. Þú getur sett inn stuttslóð (e. Slug) ef þú vilt, annars er hún búin til sjálfkrafa.

Þú getur sett inn lýsingu á flokknum undir „description“ ef þú vilt, en það er ekki nauðsynlegt. Smelltu á „Add new category“ til að vista nýja flokkinn.

Einnig er hægt að búa til undirflokk ef þú vilt hafa stigskipt kerfi. T.d. gæti yfirflokkurinn (e. Parent) verið eitthvað eins og „fatnaður“ og undirflokkur þá verið „peysur“. Þá býrðu fyrst til yfirflokkinn og velur hann undir „parent“ þegar þú býrð til undirflokkinn. Færslan þín kemur þá til með að birtast bæði í yfir- og undirflokknum.

Þú getur hakað við heitin á flokkunum ef þú vilt eyða mörgum í einu. Hægt er að velja „quick edit“ til að breyta heiti á flokki eða stuttslóðinni á hann.

Gott er að skilja muninn á flokki og merki (e. Tag). Við erum búin að fjalla um flokka en merki eru aðeins annars eðlis.

Merki eru yfirleitt eins til tveggja orða stikkorð úr færslunni þinni. Ef þú hugsar þetta eins og kennslubók, þá eru flokkar eins og efnisyfirlitið fremst í bókinni, en merkin eru orðayfirlitið sem er aftast. Vanir netnotendur kannast við merki sem #hashtag.

Rétt eins og með flokka, geta lesendur smellt á merki til að sjá færslur merktar sömu stikkorðum.

Þegar þú skoðar vefsíðuna þína geturðu smellt á „edit tags“ á stikunni efst til að bæta við merkjum, breyta þeim eða eyða.

Þú getur líka bætt þeim við, eytt eða breytt með því að smella á „tags“ undir „posts“ í valmyndinni vinstra megin á skjánum. Rétt eins og með flokkana er hægt að setja inn heiti undir „name“ og stuttslóð undir „slug“. Einnig geturðu hakað við merkin til að eyða þeim, smellt á „quick edit“ til að breyta þeim í skyndi o.s.frv.

Hægt er að leita að merkjum í leitarglugganum.

Nú ætlum við að renna aðeins yfir hvernig þú getur búið til síður í WordPress og breytt þeim.