Þótt þú viljir auðvitað að fólk eyði sem mestum tíma á síðunni þinni er nauðsynlegt að vera með hlekki á aðrar vefsíður, svo hún sé ekki einskonar blindgata á internetinu. Leitarvélarnar kunna líka að meta ef þú setur hlekk á eitthvað sem lesendum finnst vera áhugavert efni.
Ef þú vilt setja inn hlekk á aðra vefsíðu skaltu fyrst fara inn á hana og afrita slóðina. Veldu svo textann sem þú vilt að vísi á slóðina og smelltu á takkann með keðjunni. Þar límirðu hlekkinn og staðfestir með bláa takkanum.
Þú getur líka sett hlekk á þína eigin síðu, til dæmis eldri færslu. Þá byrjaðu að skrifa nafnið á færslunni eða stikkorð úr henni og WordPress-kerfið leitar að henni sjálfkrafa og birtir í flettiglugga. Þú velur færsluna og smellir á bláa takkann til að staðfesta. Einnig geturðu smellt á tannhjólið til að leita að færslu eða breyta stillingum fyrir hana.
Smelltu á „preview“ til að sjá færsluna á vefsíðunni þinni. Þar geturðu smellt á hlekkinn til að prófa hvort hann virki eða ekki.
Það er mjög vinsælt að nota myndir sem hlekki, þannig að þegar lesandi smellir á mynd, færist hann eitthvað annað.
Næst á dagskrá: Útlitsbreytingar í WordPress