Gunnlaugur
Gunnlaugur

“Ég skapa verðmæti í gegnum internetið fyrir viðskiptavini mína og vill gera það sama fyrir þig.”

WordPress hýsing og umsjón

Pakkar

Sagan


Fæðingastaðurinn og fyrstu árin þar

Ég heiti fullu nafni Gunnlaugur Arnar Elíasson og er fæddur árið 1985 í Vestmannaeyjum, 8. desember. Faðir minn hefur verið sjómaður alla sína tíð, en nú starfandi í landi, ættaður úr Vestmannaeyjum, og móðir mín, ættuð af Skaganum, starfar á dvalarheimili aldraðra. Ég á eina systur sem er 5 árum yngri en ég, hún vinnur í flottri gjafavöruverslun í Reykjavík. Sjálfur hugsaði ég um að verða sjómaður, – en pabbi ráðlagði mér frá því. Margir af mínum forfeðrum og frændum eru sjómenn og því er ég nánast undantekningin – er ekki á sjó, en held samt sjó í lífinu. Ég ólst upp í Vestmannaeyjum, með systur minni og foreldrum mínum. Þau hafa alltaf stutt mig vel og það er mér ómetanlegt. Fyrsti skólinn minn var Hamarsskóli – sem er grunnskóli í Vestmannaeyjum. Eftir fermingu hófst tölvuleikjatímabilið mitt, ég spilaði mikið tölvuleikinn Quake 3 og þótt ég segi sjálfur frá varð ég einn af færari spilurum á Íslandi. Leikirnir lögðu grunninn að tölvufærni minni og í gegnum tölvuleikina og leikjamót kynntist ég fjölda fólks, meðal annars ýmsum samstarfsmönnum mínum í dag. Eftir grunnskólann lá leiðin í FÍV – Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum. Þar kynntist ég fyrst frjálsri mætingu – og var kannski ekki áhugasamasti nemandinn – en maður var bara ungur. Á þessum árum stundaði ég vinnu í sumar- og jólaleyfum – í Vinnslustöðinni, Ísfélaginu og bæjarvinnunni, og vinnan gaf oft góðan pening. Ég prófaði líka að fara á sjóinn – en fann að sjómennska og fiskveiðar voru ekki fyrir mig. Leiðin lá svo frá Vestmannaeyjum, þegar ég var 16 – 17 ára, til að fara í nám í Reykjavík.

Reykjavík – nám og fyrsta fasta vinnan

Í Reykjavík fór ég í FÁ – Fjölbrautaskólann við Ármúla. Þar stóð ég mig ekkert sérstaklega vel í náminu, til að byrja með. Ég leigði með vini mínum og við nenntum ekki að sinna náminu vel – við vinirnir áttum líklega met í að vera lélegir nemendur í FÁ. Metnaðurinn var ekki til staðar til að byrja með. En svo áttuðum við okkur á því að þetta var ekki sniðugt og ákváðum að taka okkur á og kláruðum okkar nám. Því næst var mér boðið að vinna hjá fyrirtæki sem núna heiti Epli.is þar sem ég sem ég vann á lager og í sölu. Þetta var fyrsta fasta launavinnan mín.

Áhugi á markaðssetningu

Ég var víst smá braskari í mér frá unga aldri og byrjaði snemma að spá í sjálfstæðan rekstur og setti upp fleiri en eina vefsíðu. Það er gaman að pæla í því hvenær neistinn kviknaði, bæði á markaðssetningu og samspili hennar og að afla peninga í tengslum við internetið. Ég var snemma með draum um að vera vefsíðueigandi, eiga fína síðu sem fólk kæmi daglega á og sæi efni frá mér – og jafnframt að geta nýtt internetið til að fá inn peninga fyrir litla vinnu. Ekki að ég hafi verið latur, því það er ég ekki – en hugsunin var svona. Fyrst opnaði ég tenglasíðuna black.is – sem var vinsæl og ágætlega öflug, en ég vissi ekki hvernig ég átti að fá tekjur af starfrækslu síðunnar. Ég vissi að til að fá tekjur þyrfti ég að fá auglýsendur, en kunni bara ekkert almennilega á þetta á þessum tíma. Ég fann að ég var kominn í vítahring og gafst að lokum upp á black.is. Svipaða sögu er að segja af annarri síðu, nightlife.is – sem var dagskrá yfir skemmtana- og næturlífið. Þannig má segja að hluti draumsins um að afla peninga fyrir litla vinnu gekk ekki upp, því hann snerist á hvolf og ég vann mikið fyrir lítið af peningum. En gróði minn var fullt af reynslu, hvernig ætti að standa að vefsíðugerð – og líka hvernig væri líklegra að geta aflað peninga með öllu saman. Í þessu sambandi má til gamans nefna að síðurnar voru settar upp á WordPress, 2006-2007, þegar WordPress var líklega bara 3 ára, þannig að ég var fljótur að nýta mér nýja hluti á þessu sviði. Seinna kom svo fyrirtækið ,,Nordelectronics“ í Eistlandi, sem síðar er gerð grein fyrir, þar sem uppsöfnuð reynsla og þekking var nýtt og það fyrirtæki gerði það gott.

Fyrsta fyrirtækið

Ég var farinn að fá margar fyrirspurnin um hvernig ætti að gera hlutina varðandi heimasíður og fleira og ég var farinn að taka að mér að gera vefsíður fyrir vini og kunningja og hjálpa þeim með margt annað í kringum þau mál. Ég ákvað þá hefja rekstur á því sviði og setti árið 2008 upp rekstur sem snerist um vefsíðugerð. Úr því varð fyrirtækið 23, sem í grunninn var vefsíðugerð, en þróaðist síðar yfir í að verða líka auglýsingastofa (í dag). Ég gaf mig ekki út fyrir að kunna eða geta allt sjálfur og fékk með mér fólk með þá þekkingu sem ég hafði ekki. Kunningi minn kom inn í fyrirtækið og við rákum það saman til 2010 þegar ég fór út í nám. Eftir heimkomuna gengu hlutirnir svo ekki fyllilega upp og ég tók þá ákvörðun að snúa mér að öðrum hlutum og meðeigandinn tók við mínum hlut í fyrirtækinu og í dag er það 23 auglýsingastofa.

Barcelona – markaðssetningarnám

Ég hef áður sagt að ég hef alltaf haft einhvern áhuga á markaðssetningarmálum – sérstaklega netmarkaðsmálum. Netið heillar mig því þar er allt mælanlegt. Margir milljarðar fólks eru á netinu og ef þú ert með réttu aðferðirnar og tækin og setur metnað og vinnu í að ná árangri, geturðu náð til svo mikils fjölda. Ég lærði markaðsfræði í 3 ár í Barcelona (2010 – 2013), í háskólanum, IED – Istituto Europeo di design, sem lauk með BA gráðu. Þótt ég segi sjálfur frá þá blómstraði ég á vissum sviðum í skólanum, sérstaklega þegar kom að stefnu í markaðmálum, markaðsáætlunum og netinu í því sambandi. Ég var meira að segja farinn að uppfræða kennarana um það nýjasta í möguleikum með netmálin og aðferðirnar og mér fannst mjög skemmtilegt að geta kennt kennurum og samnemendum mínum. Það var ákveðið hugrekki hjá 25 ára manni, að fara svona út í óvissuna. Sannast sagna langaði mig að snúa við strax fyrsta kvöldið í Barcelona, þegar okkur höfðu verið réttir lyklar að íbúð sem reyndist grútskítug. En svo reyndist þetta fólk ótrúlega góðir leigusalar. Barcelona er æðisleg borg, mikið að sjá og upplifa. Og gaman að geta vaknað á hverjum degi og vita hvernig veðrið yrði þann daginn, í staðinn fyrir endalausu óvissuna og veðursýnishornin á Íslandi. Í Barcelona var ekkert hálfkák í náminu, eins og var fyrstu árin mín í Fjölbraut í Ármúla og ég fékk dýrmæta þekkingu sem ég hef náð að nýta vel. Á lífsleiðinni hef ég, meðal annars með Barcelonadvölinni og því sem á eftir kom, gert meira en flestir jafnaldrar og vinir mínir, sem hefur gefið mér mikilvægan þroska og víðari sýn á lífið og fjölbreytta möguleika þess. Í Barcelona eignaðist ég líka fullt af góðum vinum og vinkonum og er enn í sambandi við mörg þeirra.

Nordelectronics – annað fyrirtækið

Í Barcelona ákváðum við, ég og bekkjarfélagi minn frá Eistlandi, að stofna raftækjanetverslun í Eistlandi. Hann hafði svæðistenginguna og ég hafði tækniþekkinguna og mína fyrri reynslu. Útkoman var Nordelectronics. Þarna fórum við að sjá tekjur koma inn í fyrsta skipti og fórum að sjá hina miklu krafta og miklu möguleika internetsins og fjölmennara samfélags, íbúafjöldi Eistlands er um 1,3 milljónir. Gaman er að taka fram að Nordelectronics var tilnefnd sem ein notendavænsta netverslunin í Eistlandi í janúar 2016. Samstarfólkið og aðrir sem ég kynntist í Tallinn var gott og flott fólk og góðir vinir mínir, sem ég er í sambandi við. Þessi rekstur kallaði á margar ferðir til og frá Eistlandi og ég fæ enn heimsóknir þaðan. Þar sem ég var með mína föstu búsetu á Íslandi á þessum árum (2012-2014) og hafði ekki tök á að flytja til Eistlands, ákvað ég að selja minn hlut – og sneri mér að áframhaldandi starfsemi á Íslandi.

Exactly.me

Árið 2014 kom ég inn í teymi frábærs fólks frá Silicon Valley í Bandaríkjunum. Tilefnið var undirbúningur og gerð samskiptaforrits, sem heitir exactly.me, flott og öflugt forrit sem er í góðum gangi í dag. Ég fékk að vinna með þungarvigtaspilurum einsog David Warthen einum stofnanda Ask Jeeves, einnar af vinsælustu leitarsíðum heimsins. Frábært tækifæri að vinna með David og þessum Bandaríkjamönnum almennt. Þeir eru mjög skipulagðir, spá mikið í tölfræðina. Miklar pælingar og mistök geta verið dýrkeypt. Við unnum meira og minna alla skipulags- og samskiptavinnuna í gegnum tæknina, svo sem fjölmarga skipulagða vinnufundi þátttakenda í öllum heimshornum í gegnum Skype og Gotomeeting. Að verkefninu unnu teymi í alla veganna fjórum löndum, Bandaríkjunum, Hvíta Rússlandi, Indlandi og Íslandi. Afurðin var forritið exactly.me – forrit byggt fyrir milljónir notenda. Þegar þetta spennandi, skemmtilega og krefjandi verkefni kláraðist, með þessari flottu afurð, hófst eða kannski öllu heldur hélt áfram breyttur vinnukafli í lífinu, fyrirtækið Veföld.

Veföld – þriðja fyrirtækið

Eftir Nordelectronics-kafla lífs míns, ákváðum ég og góður félagi minn að búa til nýtt fyrirtæki sem var vefhýsing og vefumsjón fyrir WordPress kerfið og á meðan við vorum að þróa og setja upp kerfið þá tók ég þátt í Ameríkuævintýrinu með exactly.me sem áður er lýst. Við stofnuðum fyrirtækið Veföld ehf. árið 2014, eftir talsverðar pælingar okkar félaganna um gott nafn. Tveimur árum seinna, eftir mikla vinnu og þróun, var kerfið tilbúið til að fara í loftið. Kerfið snýst um hýsingu og umsjón á WordPress vefsíðum, sem eru skalanlegar, á þann hátt að þær geta hentað sem einfaldar og nettar síður fyrir blogg og allt upp í stórar fréttasíður með mikla trafík.

Lífið í dag

Ég á núna, á árinu 2016, fjölskyldu í Reykjavík. Ég er í sambúð og með fósturdóttur og ungt barn. Eins og fram kom í upphafi rek ég fyrirækið Veföld ehf. og vinn þar að fjölþættum verkefnum. Einnig starfa ég hjá The Engine Iceland og sinni ráðgjöf um markaðssetningu á internetinu.

Settu upp WordPress vef hjá Veföld